Þekking og reynsla gatara

Höfundur: Glódís

Að læra að verða gatari er ekki auðvelt, það tekur tíma og þrautseigju að læra að framkvæma líkamsgatanir á öruggan og faglegan hátt. Götun er lærð með verklegri kennslu og góð kennsla felur í sér langa lærlingsstöðu með hæfum gatara. Flestir gatarar sem byrjuðu fyrir 10+ árum lærðu með því að lesa sér til, tala við reyndari gatara og með tilraunastarfssemi. Tímarnir voru aðrir þá, en í dag er ekki viðeigandi að byrja að læra sjálfur að gata.   

Sem gatari með yfir áratugs langa reynslu, þá er það mér mjög mikilvægt að vera sífellt að uppfæra þekkingu mína. Það er margt sem hefur breyst frá því að ég byrjaði og götunarheimurinn er sífellt að þróast! 

Reynsla og þekking

Það er því miður þannig að sumir byrja að gata fólk án þess að hafa reynslu eða þekkingu. Sem dæmi eru helgarnámskeið eða götunaskólar sem spanna stutta tíma ekki nægileg þjálfun til að gerast gatari og því ætti alltaf að skoða hvort það sé eina ‘’menntun’’ sem gatarinn hefur. 

Það er mikilvægt að skoða hve lengi gatarinn sem þú ætlar til hafi verið starfandi, hvernig hann lærði og hvað hann gerir til að halda þekkingunni við og bæta hana og uppfæra eftir nýjustu aðferðum, til dæmis með því að taka áframhaldandi námskeið um anatómíu, eftirmeðhöndlun gata, tækni og hreinlæti í götunarrýminu.

Gatarinn sem þú velur ætti að geta svarað öllum spurningum sem gætu komið upp, hjálpað þér að velja viðeigandi skart fyrir hvert gat, gefið þér góðar umhirðuleiðbeiningar og sagt þér frá öllum mögulegum fylgikvillum sem gætu komið upp í gróunarferlinu. Ef þér finnst svörin við spurningum þínum ekki fullnægjandi þá ráðlegg ég þér að finna gatara með meiri reynslu og þekkingu.

Hreinlæti

Áhöld skulu vera dauðhreinsuð, sótthreinsuð eða einnota eftir því sem við á. Nálar, tangir og lokkar eiga ávallt að vera í dauðhreinsuðum lokuðum umbúðum og sett á bakka eða dauðhreinsað í kasettu í statim autoklava. Allar umbúðir ættu að vera opnaðar fyrir framan þig. Það er algjört lykilatriði að gatari notist við dauðhreinsibúnað (e. autoclave) til að sjá til þess að lokkar og áhöld séu dauðhreinsuð. 

Gatarinn ætti að skipta um hanska ef hann snertir eitthvað annað en götunarstaðinn og það sem notað er til að gata. Ermar á flíkum mega ekki ná að hönskum og skipta á um hanska eftir uppsetningu og fyrir götun.

Hverja nál má eingöngu nota í eina götun og á í framhaldi að vera sett í lokað nálabox sérstaklega hönnuð fyrir notaðar nálar, það eru venjulega gul eða rauð box. Box verða að vera með föstu loki og mega alls ekki vera á gólfinu. Við erum með okkar vegghengt sem er öruggt og þægilegt. 

Starfsleyfi

Til að fá starfsleyfi á Íslandi þarf einungis að uppfylla lágmarkskröfur heilbrigðiseftirlits á 1-2 ára fresti, en það segir lítið um þekkingu gatara og hreinlæti á stofunni frá degi til dags. Ef gatari eða sofa eru að starfa án starfsleyfis (það á að hanga þar sem allir geta séð það) þá ráðlegg ég að hringja í heilbrigðiseftirlitið og tilkynna það.