Ýmislegt um keloid!

Höfundur: Diljá

Við höfum öll heyrt talað um keloid og margir halda að keloid sé samheiti yfir svokölluð “piercing bump”, sem sagt upphleyptan vef sem myndast oft þegar til dæmis göt verða fyrir einhvers konar hnjaski. En það er hins vegar ekki rétt!

Hvað er keloid?

Keloid er kallað örbirgsli á íslensku. Þetta er upphleyptur, óreglulegur örvefur (oft gúmmíkenndur og stinnur) sem myndast eftir meiðsli eða göt. Það er hægt að fá keloid ör eftir t.d. brunasár, en það lítur vissulega öðruvísi út heldur en keloid öramyndun á gati í eyra þar sem göt eru pínulitlar holur en skurðir, brunasár o.s.frv. eru það ekki. Keloid verða til þegar “meidda” húðin offramleiðir kollagen þegar hún er að endurnýja sig. Þetta gerist vegna vanstarfsemi (dysfunction) í gróandaferli líkamans.

Hvað er ofholdgun?

Ofholdgun er íslenska yfir hypertropic scar. Þau eru önnur týpa af upphleyptum örum sem gerist einnig út af of miklu kollageni, en munurinn er að þau ör halda sér á svæðinu sem meiddist, á meðan keloid fara út fyrir meidda svæðið. Ég mun örugglega skrifa meira um þessi ör seinna þar sem internetið er fullt af röngum upplýsingum um hypertrophic ör eftir göt.

Sem sagt!

Keloid ör á gati: getur farið langt út fyrir gataða svæðið.

Hypertrophic ör á gati: upphleypt, einskorðast við svæðið sem var gatað.

Eru keloid hættuleg?

Í stuttu máli - Nei.
Keloid geta verið óþægileg þegar þau eru að vaxa, þeim getur fylgt kláði, þau geta haft áhrif á hreyfingu húðarinnar, þau geta stækkað yfir langt tímabil (á mánuðum og jafnvel árum) og það er mun erfiðara að meðhöndla þau heldur en ofholdgunarör. Fólki finnst almennt ekki ákjósanlegt að vera með keloid af þessum óstæðum, en keloid eru ekki hættuleg eða smitandi.

Tvö keloid. Mynd: Healthline.

Get ég losnað við keloid?

Ef þú ert með keloid sem þú vilt losna við, þá þarftu að tala við húðlækni. Það er ekki endilega sniðugt að skera keloid af, því þau koma þá yfirleitt aftur, en læknar eru með ráð á reiðum höndum og  mér skilst að þeir geti m.a. sprautað örið með sterum eða jafnvel fryst minni keloid.

Afhverju fá sumir keloid en ekki aðrir?

Keloid er sem áður segir “dysfunction” í gróandaferli líkamans. Þau eru talin arfeng þar sem fólk er samkvæmt rannsóknum mun líklegra til að fá keloid ef einhver í fjölskyldunni er með keloid ör. Samkvæmt Vísindavefnum er örbirgslamyndun 15% líklegri á fólki með dökka húð.

Má maður fá sér göt ef maður er með keloid ör?

Það er ekki algjört samasem merki á að fá keloid í hvert einasta sár eða gat þó maður sé með keloid ör (eða einhver í fjölskyldunni). Ég hef sjálf bæði hitt fólk og séð myndir af fólki með mörg göt, sem fengið hefur keloid í sum þeirra en alls ekki öll. Ég er ekki að mæla með því að fólk taki sénsinn á að fá sér göt ef það er með keloid ör einhvers staðar á líkamanum, en það er vissulega val einstaklingsins og mæli ég þá með að tala við lækni áður, kynna sér meðhöndlunarferlið á keloids og mögulegan kostnað ef það þyrfti síðan að fjarlægja keloid.

Heimildir

American Academy of Dermology

Vísindavefurinn

Genetics of Keloid Scarring

Healtline