Plastlokkar - nei takk!

Höfundur: Diljá 

Eitt af því sem er svo skemmtilegt við göt er að það er hægt að skreyta þau á óteljandi vegu og leyfa sínum stíl og persónuleika að skína í gegn. Hvort sem þú elskar glitrið í ópalum, átt þér uppáhalds lit, þykir vænt um mánaðasteininn þinn, elskar subtle lúxusinn við að vera með ekta gullhring í eyranu, nú eða áberandi lúxusinn í að vera með gull og gimsteina í öllum götum - möguleikarnir eru endalausir! Lokkar og tunnel fást úr allskonar efnum; títaníum, gulli, stáli, steini, viði, gleri, sílíkoni o.fl. o.fl... og jú, plasti.

Plastlokkar eru ekki jafnalgengir í skartgripaflórunni og þeir voru áður, en margir kannast við tunnel og tungulokka úr plasti, fyrir utan það náttúrulega að sumir gatarar notuðu eða nota enn plastlokka í munngöt. Það var eitt sinn talið að plastlokkar væru ákjósanlegir í munngöt þar sem plast er mýkra en málmur og voru því taldar minni líkur á tann- og gómaskemmdum. Í dag vitum við að plastlokkar geta líka valdið tann-og gómaskemmdum (rétt staðsetning, passlegur lokkur og það að tyggja ekki á lokknum sínum til gamans eru lykillinn að farsælu munngati) plast rispast auðveldlega og rispurnar geta ert og safnað í sig bakteríum og að plastlokkar geta mögulega leyst frá sér skaðleg efni. 

En þrátt fyrir þetta alls saman er enginn skortur af söluaðilum af plastlokkum. 

Hvernig plast er í lokkum? 


Þegar maður sér plastlokka á netinu eru þeir oft  flokkaðir sem “akrýll”. Smá side note: akrýll er ekki eitthvað eitt, heldur er allskyns mismunandi plast sem flokkast sem akrýll. PMMA (poly methyl methacrylic) er algengasta plastið sem notað er í skartgripi og fleira undir heitinu “akrýl”. PMMA er notað í gervineglur, naglalökk, málningu og FULLT af öðrum hlutum. Hreint PMMA er t.d. notað í ígræðslur og beinalím, það er því öruggt mannslíkamanum (e. bio compatible) og ígræðsluhæft (e. implant grade), sem er vissulega það sem við gatarar leitumst eftir.

En málið er ekki svo einfalt, því miður. Hreint PMMA er prufað í ystu æsar. Það er allt mælt í þaula,  það er prófað á dýrum (og ég er ekki að tala með dýraprófunum), það þarf í flestum tilfellum að vera gæðamerkt og rekjanlegt svo hægt sé að tryggja að meðhöndlun sé rétt. Það gefur augaleið að hreint PMMA er dýrt efni og því eru flestir - ef ekki allir - framleiðendur akrýl lokka að vinna með einhvers konar PMMA-blöndur sem gerir vöruna ódýrari í framleiðslu og sölu. Í mörgum löndum er takmarkað regluverk um þessi íblöndunarefni, og hafa til dæmis litarefni, annars konar akrýl og plastefni og fleira verið notuð í slíkt. Oft eru þetta krabbameinsvaldandi efni.

Tungulokkar úr plasti. Eitt sinn var talið að plastlokkar væru ákjósanlegir í munngöt þar sem plast er mýkra en málmur og voru því taldar minni líkur á tann- og gómaskemmdum. Í dag vitum við að rétt staðsetning, passlegur lokkur og það að tyggja ekki á lokknum sínum til gamans eru lykillinn að farsælu munngati.

Get ég keypt lokka úr hreinu PMMA?

Nei, það væru allavega fréttir fyrir mig! Hreint PMMA er allt of dýrt og óaðgengilegt, það borgar sig ekki fyrir framleiðendur. Því eru akríl lokkar (og akríl er sem áður segir, blandað með PMMA) ekki að fara að vera ígræðsluhæfir (e. implant grade) og þeir eru ekki að fara að búa yfir þessum frábæru eiginleikum sem hreint PMMA býr yfir.

En hvað með bioplast? 

Framleiðendur af bioplast/bioflex lokkum halda því fram að efnið sé öruggt mannlíkamanum og ígræðsluhæft en þeir hafa aldrei viljað gefa út nákvæmar upplýsingar um innihald plastsins. Það eru engar sannanir eða rannsóknir sem sýnt hafa að þessir lokkar séu öruggir, þeir eru ekki heldur með merkingar frá FDA (Heilbrigðisstofnun Bandaríkjanna) eða CDC (Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna). Það er líka takmarkað regluverk á auglýsingum á líkamsskarti og því komast fyrirtæki upp með fullyrðingar um öryggi sem er ekki endilega til staðar. Og það er ekki þess virði á að taka sénsinn á lokkum sem gætu mögulega innihaldið krabbameinsvaldandi efni. 

Hvað um retainera? 

Ef þú ert að fara í MRI-skanna, aðgerð eða annað þarf sem þess er krafist að allir lokkar séu fjarlægðir, þá mæli ég frekar með retainerum úr gleri ef þú ert hrædd/tt/ur um að götin þrengist eða lokist.

Að lokum 

Líkamskreytingar eru svo flott og fjölbreytt tjáningarform. Við eigum öll rétt á að vera með vandað skart í götunum okkar, enda leggjum við peninga, tíma og þolinmæði í að láta þau gróa. Það er leiðinlegt að við sem elskum göt getum ekki treyst því að allt líkamsskart sé öruggt og því er um að gera að kynna sér málin vel um hvaða efni við setjum í okkur, hvort sem gatið er nýtt eða gróið.